Vegna óbeitar margra bíógesta á poppkorni ætlar kvikmyndahúsasamsteypan Picturehouse Cinema í Bretlandi að bjóða upp á popplausar sýningar klukkan sjö á þriðjudögum í Norwich. Slái þetta í gegn verður poppið alveg bannað, eins og reyndar er nú þegar í sumum breskum kvikmyndahúsum. Þeir sem sækja popplausar sýningar eru fyrst og fremst áhugamenn um list og menntir, að sögn markaðsstjóra Curzon-samsteypunnar.
Ingi Úlfar Helgason, verkefnisstjóri hjá Sambíóum, kveðst ekki hafa heyrt að viðskiptavinir séu viðkvæmir fyrir lyktinni af poppinu, hávaðanum þegar menn kjamsa á því og óþrifnaðinum sem fylgir því. „Sjálfum finnst mér betra þegar popplyktin kemur á móti manni í bíó. En sérsýningar eru mögulegar komi fyrirspurnir frá kúnnanum um slíkt.“