Nýsjálenskar klámmyndaleikkonur mega ferðast berbrjósta á vélhjólum í skrúðgöngu í Auckland, sem er stærsta borg Nýja Sjálands. Dómstóll í landinu hefur úrskurðað í málinu, sem hefur þótt umdeilt, og gefið göngunni grænt ljós.
Borgarráð Auckland fór fram á það við dómstóla að „Boobs on Bikes“ skrúðgangan yrði stöðvuð, en hún á að fara fram á morgun. Borgarráðið heldur því fram að gangan brjóti gegn samþykktum sem kveði á um að banna eigi opinbera viðburði sem þykja móðgandi eða særandi.
Dómarinn Nicola Mathers segir að þrátt fyrir að andstæðingar göngunnar þyki hún vera smekklaus þá sé staðreyndin sú að mjög margir, eða um 80.000 manns sem tóku þátt í göngunni í fyrra, séu á öðru máli.
Leðurklæddar klámmyndastjörnur, bæði innlendar og erlendar, ferðast með skrúðgöngunni niður Queens St. en gangan er liður í alþjóðlegri erótískri vörusýningu.