Nýlega bárust fréttir að því að Stórfótur (e. Bigfoot) hafi fundist í Georgíu Bandaríkjunum. Nú hefur hins vegar komið í ljós að um gabb var að ræða. Stórfótur var í raun górillubúningur í kistu fullri af ís.
Í síðustu viku sögðust tveir menn hafa komið að skepnunni, sem minnir um margt á apa, dauðri í skógi í júní sl. Þeir sögðu hana vera 2,3 metra á hæð og 226 kíló.
Tveir vísindamenn keyptu hræið, sem var í ískistu, fyrir ótilgreinda upphæð.
Nú hefur ísinn bráðnað og komið hefur í ljós að Stórfótur er í raun ekkert annað en górillubúningur úr gúmmíi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn reyna að græða á goðsögninni um skepnuna ógurlegu.
Í síðustu viku sögðu Matt Whitton, sem er lögreglumaður, og Rick Dyer, sem er fyrrverandi fangavörður, á blaðamannafundi að þeir hefðu fundið dýrið í Kaliforníu er þeir voru í göngu.
Þeir birtu ljósmynd á vefsíðu sinni þar sem sjá mátti stóra loðna skepnu. Sérfræðingar voru fullir efasemda og ekki leið á löngu þar til menn áttuðu sig á því að um gabb hafi verið að ræða.