Blindur franskur blaðamaður var í dag dæmdur í mánaðar skilorðsbundið fangelsi og sektaður um 500 evrur, jafnvirði 60 þúsund króna, fyrir að aka bíl ölvaður og réttindalaus.
Eigandi bílsins, sem einnig var drukkinn, sat við hlið blinda mannsins í framsæti bílsins þegar lögregla stöðvaði ökuferðina. Hann fékk sama dóm og var jafnframt sviptur ökuréttindum í fimm mánuði.
Félagarnir tveir voru handteknir á sveitavegi í nágrenni borgarinnar Nancy í júlí en lögreglumönnum fannst ökulagið einkennilegt: bíllinn rásaði á veginum og fór afar hægt.
Lögreglumönnunum brá í brún þegar þeir gerðu sér grein fyrir því að ökumaðurinn, sem er 29 ára, var blindur. Þá reyndust hann og farþeginn, 52 ára ljósmyndari, vera ölvaðir.
„Mig langaði til að aka bílnum," sagði blaðamaðurinn í réttarsalnum. „Ég bað um það og hann samþykkti."
Bíleigandinn sagði að félaginn hefði verið afar hamingjusamur undir stýri. Hann sagðist hafa haft aðra höndina á handbremsunni og hina á stýrinu til öryggis. „Ég einbeitti mér að því að fylgjast með veginum," sagði hann.
Dómarinn sagði hins vegar, að í ljósi ölvunarástands bíleigandans hefði hann ekki verið sérlega öruggur ökukennari.
Blindi blaðamaðurinn hefur áður fengið að aka á lokaðri braut og hann skrifaði um þá reynslu sína í blað sitt. Með birtust myndir, sem ljósmyndarinn tók.