Fjögurra ára gamall köttur, sem kallast Bonny, lifði af að vera lokaður inni undir baðkari í sjö vikur í Þýskalandi. Eigandi kattarins segir að um kraftaverk sé að ræða.
„Ég er mjög trúuð og ég held að verndarengill hafi vakað yfir henni. Ég er svo glöð,“ sagði eigandi kattarins Monika Hoppert.
Bonny hvarf 19. júní sl. þegar unnið var að því að skipta um pípulagnir í íbúðahúsi þar sem Hoppert býr. Kötturinn, sem er svartur, sást síðast á vappi í íbúð nágrannans, en hann hafði verið að leika sér í baðkari sem hafði verið fjarlægt á meðan framkvæmdir stóðu yfir.
Þegar baðkarinu var komið fyrir á sinn stað skaust Bonny undir það og lokaðist inni.
Þegar nágranninn lokst heyrði í kettinum mjálma í gegnum flísarnar 8. ágúst sl. hafði kisi lést um fjögur kíló, úr tæpum sex kílóum í tæp tvö.
„Ég trúði þessu varla. En þegar ég fór niður þá vissi ég að þetta var kötturinn minn, því þeir eru allir með sína eigin rödd,“ sagð Hoppert, sem er 60 ára gömul ekkja.
Bonny var afar veikburða og lagði dýrlæknir til að hún yrði svæfð. Hoppert neitaði því og hjúkraði kisa aftur til heilsu.