Breskur þingmaður segist hafa unnið sigur fyrir breskt tákn í útrýmingarhættu - rauða símaklefann. Á undanförnum árum hafa þúsundir slíkra klefa verið fjarlægðir þar sem þeir hafa lotið í gras fyrir farsímanum.
Alan Duncan, þingmaður breska Íhaldsflokksins, segir að símafyrirtækið BT PLC hafi samþykkt að leyfa klefunum að standa, en þá án síma. Tilgangurinn er að þeir falli ekki í gleymskunnar dá. Þá segir hann að sveitarfélög geti haldið símtækjunum í klefunum séu þau reiðubúin að greiða fyrir viðhald og rekstur símanna.
BT greindi frá því í apríl sl. að til stæði að fjarlæjga 9000 símaklefa, þ.m.t. fjölmarga rauða klefa sem Giles Gilbert Scott hannaði.
Duncan segir að áætlunin, sem kallast á ensku „adopt-a-kiosk“, muni sjá til þess að símaklefarnir hverfi ekki alfarið af sjónvarsviðinu, enda fátt „breskara“ en klefarnir rauðu.