Óvenju hreinskilin auglýsing eftir barnfóstru, undir fyrirsögninni „Börnin mín eru erfið“, skilaði árangri fyrir fertuga fjögurra barna móður á Manhattan, sem hefur nú ráðið hugrakka 25 ára konu til starfans. Auglýsingin var ítarleg, og viðurkenndi húsmóðirin að geta sjálf verið erfiður vinnuveitandi á stundum.
„Ef þú getur ekki sinnt mörgu í einu eða kannt ekki aðra samskiptatækni en óvirka ágengni skaltu bara sleppa því að sækja um,“ sagði Rebecca Land Soodak, sem býr í Upper East Side-hverfinu, í auglýsingunni sem hún birti á samskiptavefnum Craigslist 19. ágúst.
„Það getur verið svolítið erfitt að vinna fyrir mig. Ég er hávær og ýtin, og mér fannst við borga vel, en ég er ekki lengur viss um það.“
Nú á tímum hinna hröðu boðskipta leið ekki á löngu uns auglýsingin öðlaðist sjálfstætt líf og breiddist hratt út á bloggum og í tölvuskeytum, svo úr varð frétt í The New York Times.
Soodak er málari, og maðurinn hennar á vínbúð. Þau réðu í starfið Christinu Wynn, sem er 25 ára og nýútskrifuð úr Háskólanum í Virginíu. Hún á að gæta barnanna fjögurra, sem eru á aldrinum 12 til sex ára.
„Ég samdi um að vera að minnsta kosti eitt ár,“ sagði Wynn við NYT. „Ég hitti elsta barnið, en ekki hin, og mamma sagði að það væri brjálæði - að taka starfið án þess að hitta börnin fyrst. Það kemur í ljós.“
Hún bætti því við, að það væri stór kostur að börnin væru í skólanum í nokkra klukkutíma á hverjum degi.
Í auglýsingu Soodaks sagði ennfremur:
„Ef þú ert ósátt við lífið muntu bara verða enn óhamingjusamari ef þú tekur þetta starf, þannig að þú ættir að gera okkur öllum greiða og fara í meðferð eða flytja til fjalla, en ekki sækja um starf hjá okkur.“
„Og ef þér finnst að auðugar konur hljóti að vera hégómagjarnar erum við ekki réttu vinnuveitendurnir fyrir þig.“
„Ég hef margar kenningar um hvernig sé best að raða í uppþvottavélina, og ef þér finnst rangt að nota rítalín við athyglisbresti eða heldur að allt svoleiðis stafi af of miklu sykuráti kemurðu ekki heldur til greina.“
Ekki hafa borist af því fregnir að auglýsingin sé á leið á hvíta tjaldið sem framhald af The Nanny Diaries.
Soodak sagði við NYT: „Ég bar auglýsinguna undir eina af fyrrverandi barnfóstrunum hjá mér og hún sagði að þetta væri tiltölulega rétt lýsing. Mér fannst það dálítið sárt að heyra.“