Tveir þjófar létu greipar sópa um garðskýli Stefans Ulmenståhl í Svíþjóð í síðustu viku og þá tóku þeir sláttuvél og sláttuorf. Í þessar viku áttu þeir leið um og reyndu að ná hleðslutækinu fyrir sláttuorfið. Þá voru þeir staðnir að verki.
Ulmenståhl náði að hafa annan þjófinn undir í glímunni um hleðslutækið en hinn komst undan á reiðhjóli Ulmenståhl.
„Þjófurinn var þrjóskur og æpti: Ef þú sleppir mér ekki hringi ég á lögregluna," sagði Ulmenståhl við Svenska Dagbladet.
Lögreglan sendi bíl á staðinn og urðu lögregluþjónarnir nokkuð hissa er þeir fengu að heyra alla söguna. Þjófurinn var færður til yfirheyrslu og skömmu síðar náðist félagi hans og Ulmenståhl hefur endurheimt garðáhöldin og reiðhjólið sitt.