Lítur Elísabet II. Englandsdrottning út eins og listmálarinn Lucien Freud? Já, ef marka má rannsókn listfræðingsins Simon Abrahams sem bar saman mikinn fjölda málverka af kóngafólki og sjálfsmyndir höfunda þeirra, með hjálp tölvuforrits. Abrahams komst að þeirri niðurstöðu að málarar færðu margir hverjir eigin andlitsdrætti í andlit viðfangsefnisins. Þess megi glöggt sjá merki, t.d. í málverki Freuds af Elísabetu II. Englandsdrottningu.
Þetta kallar listfræðingurinn „face fusion“, eða „andlitasamruna“. Eins og meðfylgjandi mynddæmi sýna gæti hann haft nokkuð til síns máls. Meðal málara sem Abrahams telur hafa stundað samruna eru Nicholas Hilliard og Isaac Oliver sem báðir máluðu portrett af Elísabetu I. Þessi kenning Abrahams er umdeild, eins og gefur að skilja.