Lögregla í Berlín lokaði í vikunni sælgætisverslun eftir að í ljós kom, að súkkulaði og sleikibrjóstsykur, sem seldir voru í versluninni, voru full af skynvillusveppum og maríjúana.
Eigandi verslunarinnar, sem er 23 ára, var handtekinn grunaður um fíkniefnasölu. Verslunin er í hverfi í austurhluta borgarinnar þar sem næturlíf þykir fjörugt.
Lögregla segir að lagt hafi verið hald á 70 poka með ýmsum fíkniefnum og 20 maríjúanasígarettur. Þá hafi fundist 120 bitar af sveppasúkkulaði og ótiltekinn fjöldi af maríjúanabrjóstsykrum. Einnig voru krukkur af göróttu hunangi í versluninni.
Einn viðskiptavinur, sem virtist ekki vera allsgáður, var handtekinn eftir að hann reyndi að kaupa sveppapoka af lögreglumanni í versluninni.