Þýska lögreglan lét loka sælgætisverslun í Berlin þegar í ljós kom að eigandinn seldi súkkulaði og sleikibrjóstsykur með ofskynjunarsveppum og maríjúana.
Hinn 23 ára eigandi verslunarinnar var handtekinn vegna gruns um sölu á fíkniefnum. Sælgætisverslunin sérhæfði sig í dýru súkkulaði og var í Prenzlauer Berg, hverfi sem þekkt er fyrir fjörugt næturlíf.
Samkvæmt Reuters-fréttastofunni var einn viðskiptavinur sem var undir áhrifum fíkniefna handtekinn fyrir að gera tilraun til að kaupa poka af ofskynjunarsveppum af lögreglumanni í versluninni.
Í versluninni fundust ofskynjunarsveppir, súkkulaði blandað þeim og mikið magn af kannabis-sleikibrjóstsykrum. Einnig fundust um 70 pokar með mismunandi fíkniefnum í töfluformi og nokkrar krukkur af hunangi sem búið var að blanda með fíkniefnum.