Austurrískur veiðimaður reyndi að skjóta bíl, sem lagt hafði verið í skógarrjóðri nálægt Schmiedrait í austurhluta Austurríkis. Veiðimaðurinn sagðist hafa haldið að bílinn væri villigöltur.
Veiðimaðurinn, sem er 67 ára karlmaður, sagðist hafa dottað þar sem hann sat í veiðiturni í um 80 metra fjarlægð frá bílnum. Þegar hann vaknaði sá hann bílinn, hélt að hann væri bráð og skaut.
Áfengismælingar leiddu í ljós að maðurinn var ódrukkinn.
Eigandi bílsins, 19 ára gamall piltur, hafði ekið inn í rjóðrið eftir að bíllinn bilaði. Pilturinn stóð við bílinn ásamt bróður sínum þegar skotið reið af. Kúlan fór í gegnum bílrúðuna en engan sakaði. Veiðimaðurinn verður hins vegar væntanlega ákærður fyrir hegningarlagabrot.