Ellefu manns hafa verið ákærðir fyrir að smygla vodka frá Rússlandi til Eistlands. Aðferð smyglarana var útsmogin. Þeir fluttu áfengið í gegnum tveggja km langa leiðslu, sem liggur á botni vatnsbóls.
Málið á rætur sínar að rekja til ársins 2004. Að sögn saksóknara eru bæði Rússar og Eistar í hópi sakborninga, og búast má við því að réttarhöld yfir þeim hefjist fljótlega. Verði þeir fundnir sekir þá geta þeir átt von á að verða dæmdir í allt að fimm ára fangelsi.
Leiðslan, sem þeir notuðu, liggur í vatnsbóli sem liggur við landamæri ríkjanna, skammt frá bænum Narva í Eistlandi.
Smyglararnir högnuðust vel á starfseminni, en flaskan af rússnesku vodka kostar aðeins um einn þriðja af því sem það kostar í Eistlandi - sem gekk í Evrópusambandið í maí 2004.
Yfirvöld komust á snoðir um vodkaleiðsluna í nóvember árið 2004, eftir að eftirlitsmenn fundu um 1.100 lítra af ólöglegu áfengi í vörubifreið í Tallinn, höfuðborg Eistlands.
Að sögn lögreglu eru fjórir höfuðpaurar málsins Rússar. Þeir notuðu leiðsluna á milli ágúst og nóvember 2004. Þeir dældu a.m.k. 6.200 lítrum af ólöglegu áfengi til Eistlands, og sluppu þar með við að greiða um 7,5 milljónir kr. í gjöld.
Þá hefur rannsóknin leitt í ljós að mennirnir hafi reynt að selja áfengið á götu úti í Tallinn, í nóvember 2004. Gæði Vodkans voru hins vegar það slæm að enginn vildi kaupa áfengið.
Þeir fluttu því áfengið aftur til Narva þar sem þeim tókst síðan að selja það í Tartu, sem er önnur stærsta borg Eistlands.