Forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, er sagður hafa ýmislegt á samviskunni og nú síðast er honum kennt um hrun Lehmans Brothers. Forsætisráðherrann hefur mátt horfa upp á fylgishrun Verkamannaflokksins í skoðanakönnunum og röð af óheppilegum pólitískum, efnahaglegum og kerfisklúðurslegum uppákomum, má nú þola að haft er í flimtingum að þáttur hans í að styðja við sárasaklausa uppákomu hjá Lehman Brothers hafi orðið upphafið að hruni Wall Street-risans.
Það er til þess tekið í The Daily Telegraph í dag að jafnvel „gráa daman“ The New York Times dreifi nú brandara sem fer sem eldur um sinu í netheimum þess efnis Brown hafi við opnun úitibús Lehmans Bros í London árið 2004 lagt bölvun á fyrirtækið.
„Ég vil þakka sérstaklega fyrir framlag ykkar og fyrirtækisins til velsældarinnar hér á Bretlandi,“ sagði Brown þar í ræðu. „Í 150 ára sögu fyrirtækisins hafa Lehmans Brothers ávalt verið frumkvöðlar, fjármagnað nýjar hugmyndir og uppfinningar löngu áður en aðrir gerðu sér grein fyrir hvað í þeim bjó.“
Það er ekki aðeins í stjórnmálum og viðskiptum sem Brown er sagður óheillakráka.
Fljótlega eftir að hann varð forsætisráðherra 2007 var Brown sakaður um að á íþróttasviðinu fylgdi honum bölvun. Hermt er að á fáeinum vikum hafi hann sótt nokkra kappleiki hjá enskum og skoskum knattspyrnu- og ruðningsliðum sem allir töpuðust.
Eftir þá útreið ákvað Brown að sækja ekki landsleik Englands gegn Króatíu sem gat tryggt Englendingum sæti á Evrópumótinu sl. sumar. Þegar tilkynnt var um þá ákvörðun þurfti jafnvel talsmaður hans að viðurkenna að uppi væru hugmyndir um að forsætisráðherrann væri ekkert lukkudýr. „Sumir hafa haldið því fram að forsætisráðherrann sé ekki besti fyrirboðinn að þessu leyti hingað til.“
Allt kom fyrir ekki, - fjarvera Brown hafði ekkert að segja því að Englendingar töpuðu og misstu af Evrópumótinu sem frægt er.
Þó að Brown haf orðið vitni að afrekum breskra íþróttamanna á ólympíuleikunum í Peking þá hefur talið um forsætisráðherrann sem óheillakráku á íþróttasviðinu haldið áfram eftir að hann fékk áhuga á tennis
Fyrr í mánuðinum þegar Andy Murray komst í úrslit Opna bandaríska tennismótsins, skrifaði Brown þessum skoska landa sínum bréf og „óska ég þér alls hins besta“, stóð þar.
Murray tapaði þremur lotum í röð í úrslitunum.
Pólitískur bloggari á Bretlandi heldur úti sérstökum lista yfir fólk og viðburði sem Brown hefur valdið bölvun með nærveru sinni eða stuðningi. Sérstaklega hefur sá veitt því athygli að utanlandsferðir Brown ber einatt upp á tímum þegar fjármálamarkaðir fara á hliðina.
Til dæmis í apríl sl. aðeins fáeinum klukkustundum eftir að Brown sté á land í Bandaríkjunum í opinberri heimsókn, féll dollarinn gagnvart evrunni sem aldrei fyrr.