Það getur verið höfuðverkur að velja gjöf handa brúðhjónum. Ísraelar hafa hins vegar lausn á því, og hafa gengið skrefinu lengra. Nú geta brúðkaupsgestirnir einfaldlega stungið greiðslukortum inn í sérstaka vél, sem er komið fyrir í veislusalnum, og slegið inn vissa upphæð sem þeir vilja gefa hinum nýbökuðu hjónum.
Í stað þess að mæta með stórar gjafir í kössum þá er venjan sú í Ísrael að skilja eftir peninga eða ávísanir í umslagi handa hjónunum, en umslögunum hefur hingað til verið komið fyrir í færanlegu öryggishólfi. Hjónin hafa síðan lagt peningana inn í banka.
Nú hefur ísraelska fyrirtækið Check-Out einfaldað ferlið til muna og búið til einskonar hraðbanka sem gestirnir geta notað.