Atvinnulaus Þjóðverji sem fann sextán þúsund evrur (2,5 milljónir króna) í umslagi í vegarkanti gat ekki fengið af sér að stinga peningunum í eigin vasa heldur afhenti yfirvöldum hvern eyri.
Einnig voru skartgripir í umslaginu.
Maðurinn heitir Thomas Liedtke og er 56 ára og á fatlaðan son. Fjölskyldan framfleytir sér á atvinnuleysisbótum, sem nema 600 evrum á mánuði. Hann fann pakkann er hann var á hjóli skammt frá Ermstedt, að því er talsmaður lögreglunnar sagði.
„Peningarnir hefðu komið sér afar vel til að borga húshitunina. En samviskan bar mig ofurliði. Það var erfið ákvörðun að fara til lögreglunnar,“ hefur blaðið Bildt eftir Liedtke.
Lögreglan segir að ekki sé vitað hvaðan peningarnir komu. Enginn hafi tilkynnt um hvarf þeirra.