Frambjóðandi sem á undir högg að sækja í borgarstjórakosningum sem fram fara í Bankok í Thaílandi á sunnudaginn missti stjórn á sér í gær og kýldi og sparkaði í sjónvarpsfréttamann. Sagði frambjóðandinn að sér hefði verið ögrað með erfiðum spurningum í viðtali í beinni útsendingu.
Frambjóðandinn, Chuvit Kamolvisit, baðst síðan afsökunar. Hann réðist á fréttamanninn eftir að viðtalinu var lokið, en sagðist eftir á viðurkenna að hann hefði ekki þolað að vera niðurlægður í viðtalinu.
Thaílenskir fjölmiðlar hafa kallað Chuvit „nuddstofukónginn“, en hann var áður líkamsræktarmaður og rak nokkra bari þar sem fáklæddar stúlkur störfuðu, áður en hann hóf afskipti af stjórnmálum fyrir nokkrum árum.