Franskur framburður Bernard Kouchner utanríkisráðherra Frakklands olli ruglingi á blaðamannafundi og birtu blaðamenn tilvitnunina „Það þarf ekki að veita Íran friðhelgi... því þið munið snæða þá fyrst," en það mun ekki hafa verið það sem Kouchner átti við.
Utanríkisráðherrann sagði á ensku: „ I honestly don't believe that it will give any immunity to Iran ... because you will eat them before," en í hinum franska framburði mun bókstafurinn „h" hafa fallið niður því hann meinti „hit" í merkingunni „ráðast á" en ekki „eat" í merkingunni „snæða".
Reuters-fréttastofan sagði frá þessari misheyrn fréttamanna og benti á að „h" er oft ekki borið fram í frönsku og að Frakkar eigi það til að yfirfæra þá framburðarreglu yfir í ensku og að sjónvarpsþáttaröðin Allt í hers höndum (e. Allo, Allo) sem og leikarinn Peter Sellers í hlutverki Clouseau lögregluforingja hafi gert út á þann misskilning sem getur myndast við þessar aðstæður.