Áróður á sígarettupökkum, Reykingar drepa og fleira af því tagi, hefur engin áhrif á þá sem þegar reykja og ýtir jafnvel undir tóbaksþörfina, segir í Berlingske Tidende. Áróðurinn geti í reynd virkað eins og auglýsingar fyrir tóbak.
Vitnað er í rannsóknir sem sérfræðingur á sviði markaðsfræði, Martin Lindstrøm, hefur í þrjú ár gert á um þúsund manns víða um heim til að komast að því hver raunverulegu áhrifin séu. Hefur hann ritað bók, Buy-ologi, um rannsóknir sínar. Beitt er m.a. mælingum á heilabylgjum til að rannsaka hvað gerist í vitund fólksins í stað þess að láta nægja að spyrja það. Lindstrøm segir að niðurstöður mælinganna séu í ósamræmi við munnlegu svörin, fólk hneigist til að segja það sem það telji að það eigi að segja.