Freddie, sem er 14 ára hundur af tegundinni cairn terrier, villtist á dögunum þegar hann var úti að ganga með eiganda sínum, Jean Brigstock. Hann varð viðskila við eiganda sinn í mikilli þoku, steypti sér í sjóinn meðan frú Brigstock leitaði hans án árangurs og gerði ráð fyrir því að hann væri að fela sig í nálægum skemmtigarði.
Því var öðru nær því að meðan þessu fór fram synti Freddie sem mest hann mátti gegn straumnum og var kominn meira en hálfan kílómetra á haf út.
Það varð honum til lífs að tveir sjómenn komu auga á eitthvað sem þeir héldu fyrst að væru otur, fóru að athuga hvers kyns væri og sáu þá hundinn. Þeir fiskuðu hann um borð hundblautan í orðsins fyllstu merkingu og þar sem þeir voru ekkert á leið í land á næstu dögum höfðu þeir samband við strandgæsluna sem sendi bát eftir Freddie.
Fyrir hreina tilviljun rakst Wendy, dóttir Jean Brigstock, á eiginkonu annars sjómannsins, sem sagði henni að maður hennar og félagi hefðu fundið Freddie.
Það urðu fagnaðarfundir þegar Jean Brigstock fékk Freddie sinn aftur en hún undrast alla uppákomuna. „Freddie hatar vatn,“ sagði hún, „og það hvarflaði ekki að mér hann gæti synt. Hann sneiðir yfirleitt hjá pollum og er illa við að fara í bað.“
Jean Brigstock sagðist hafa óttast heilsu hunds síns þegar hún frétti að hann hefði fundist eins og hundur á sundi langt frá landi og einna líkastur drukknandi rottu. Farið var með hann umsvifalaust til dýralæknis en ekkert reyndist ama að honum.
„Nóttina eftir að hann bjargaðist var hann svolítið veðraður,“ sagði Jean Brigstock í samtali í The Daily Telegraph. „ Hann lét fara lítið fyrir sér og var greinilega dálítið sneyptur. En strax morguninn eftir hámaði hann í sig morgunverðinn.“
Á hvuttar.net segir um hundategundina cairn terrier að hún sé skosk að uppruna, hundurinn mjög harðger og yfirleitt heilsuhraustur og þoli vel bæði heita og kalda veðráttu. Hann sé stór hundur sem hefur lent í litlum búk.