Skilti með viðvörun á tveimur tungumálum í Swansea í Wales olli nokkrum misskilningi meðal þeirra sem skildu bæði málin þar sem textarnir voru gerólíkir og ekki í nokkru samræmi hvor við annan.
Á ensku mátti lesa viðvörun til ökumanna að vegurinn framundan væri ekki hentugur fyrir þungaflutninga. Velska þýðingin var hins vegar kolröng. Á henni sagði „Ég er ekki á skrifstofunni sem stendur. Vinsamlegast sendið allt sem á að þýða.“
Svo virðist sem bæjaryfirvöld í Swansea hafi ekki áttað sig á því að svar í tölvupósti frá þýðandanum var ekki rétta þýðingin á viðvöruninni heldur sjálfvirkt svar um að þýðandinn væri ekki við.
Skiltið hefur verið tekið niður og verður nýtt skilti með réttri þýðingu sett upp fljótlega.