„Þetta er tilraun til að sýna hvað Ísland er þrungið af bókmenntum,“ segir Arthúr Björgvin Bollason um bók sína Island sem nýlega kom út
hjá Insel/Suhrkamp í Þýskalandi. Bókin,sem er kilja, er hluti af vinsælli ritröð forlagsins, Literarische Reisebegleiter, þar sem höfundar fara á
sagnaslóðir eða fylgja eftir heimsþekktum skáldum og rithöfundum á merkum slóðum.
„Í þessari bók ferðast ég um slóðir íslenskra bókmennta, allt frá íslendingasögum til rnaldar Indriðasonar,“ segir Arthúr Björgvin. „Ég þurfti að takmarka mig við þær bókmenntir okkar sem eru aðgengilegar á þýsku. Það setti mér nokkuð þröngan stakk en ég leyfði mér að svindla á stöku stað. Ég gat til dæmis ekki skrifað bók um bókmenntaslóðir á
Suðurlandi án þess að minnast á Þórberg og Suðursveit og þegar ég var að lýsa bókmenntalandslaginu undir Eyjafjöllum komst ég ekki hjá því að víkja að sögunni um Önnu frá Stóru-Borg eftir Jón Trausta. Íslendingasögurnar eru stór partur af bók minni og sömuleiðis Halldór Laxness sem kortlagði landið í sínum sögum. Það er með Laxness eins og höfunda Íslendingasagnanna, varla er til það hérað á landinu
sem hann kortlagði ekki sem vettvang sagna.“
Bók Arthúrs Björgvins hefur fallið í kramið hjá Þjóðverjum. Dómar hafa verið lofsamlegir og höfundi var boðið í viðtal í einn bókmenntaþátt
þýska ríkissjónvarpsins sem er sendur út um það bil átta sinnum á ári. Þáttastjórnandinn Denis Scheck er bókmenntagúrú þýska sjónvarpsins.
„Hann er hvatvís og snöfurmannlegur í dómum. Ef honum líkar ekki viðkomandi bók hendir hann henni jafnvel í öskutunnu eða ruslafötu, og skiptir þá engu hvort viðkomandi höfundur er heimsþekktur eða ekki,“ segir Arthúr Björgvin.
„Honum leyfist þetta af því hann þykir mjög klár og hefur mikinn slagkraft.“
Um 95.000 nýjar bækur koma út í Þýskalandi á hverju ári og ásóknin í þátt Schecks er mikil, ekki síst vegna þess að hann tekur einungis tvo höfunda tali í hverjum þætti. Í fyrsta þætti þessa árs var Gunther Grass einn gesta og nýlega kom þar einnig fram tyrkneska Nóbelsskáldið Pamuk. Þegar Scheck hafði samband við Arthúr Björgvin fyrir nokkrum vikum og bauð honum í þáttinn lét Insel/Suhrkamp umsvifalaust prenta 10.000 aukaeintök af bókinni því reynslan sýnir að þær bækur sem Scheck mælir með í þáttum sínum taka kipp í sölu. Scheck gerði sér lítið fyrir, kippti Arthúri Björgvini með til Íslands ásamt tökuliði og viðtal þeirra félaga var tekið upp í læknum í Landmannalaugum.
Arthúr Björgvin var í sundskýlu en Scheck fór ofaní lækinn í jakkafötum og með bindi. Kvikmyndatökumenn höfðu á orði að þetta yrði viðtal ársins í Þýskalandi en það var sýnt í Þýska ríkissjónvarpinu í gær, 2. nóvember.
Bókmenntaþáttur SWR-sjónvarpsins hefur látið í ljós áhuga á að fá Arthúr Björgvin í viðtal og forstöðukona bókmenntahússins í Hamborg hefur áhuga á að hafa sérstakt kynningarkvöld um
bókina á næstunni.