Lögreglumaður í Mexíkó handtók félaga sinn sem gerðist sekur um að stela vínflösku og tónlistaspilara úr bifreið manns sem þeir höfðu handtekið í sameiningu.
Bæjarstjórinn í bænum Jesus Maria, sem er í ríkinu Aguascalientes, segir að þegar manninum var sleppt hafi hann kvartað undan því við lögregluna að vínflaska og tónlistarspilari hafi horfið úr bifreiðinni.
Annar lögreglumannanna fann síðar gripina í bifreið félaga síns, en spillti félaginn lét handtaka manninn sem átti bæði flöskuna og tónlistargræjuna. Hann bjó til þá ástæðu að maðurinn hafi verið með ólæti úti á götu.
Bæjarstjórinn, Gregorio Zamarripa, segist ætla að verðlauna lögreglumanninn sem handtók félaga sinn. „Þrátt fyrir að þetta hafi pirrað suma samstarfsfélaga hans þá er þetta dæmi um það hvernig lögreglan eigi ávallt að haga sér,“ sagði Zamarripa.