Breskur veðmangari hefur hækkað til muna líkur á því að tilvist Guðs verði vísindalega sönnuð. Fyrir tveimur mánuðum opnaði veðstofan Paddy Power fyrir veðmál um tilvist Guðs og nema veðmál nú 5.000 pundum, andvirði um 10 milljóna króna.
Í upphafi bauð stofan upp á líkurnar 20-1, sem þýðir að fyrir hvert pund, sem lagt er undir, fengjust 20 pund væri tilvist Guðs sönnuð. Líkurnar minnkuðu í 33-1 þegar atómhraðalnum í Sviss var lokað vegna tæknilegra vandræða. Í kjölfar nýrrar herferðar breskra trúleysingja, sem háð er undir slagorðinu „Líklega er enginn Guð til“, hefur áhugi aukist mjög á veðmálinu. Fari svo að tilvist Guðs verði vísindalega sönnuð stendur stofan því frammi fyrir miklu tapi og hefur því aukið líkurnar. bjarni@mbl.is