Hundurinn Gus, sem í sumar var valinn ljótasti hundur í heimi, er dauður. Gus var eineygður og gekk á þremur fótum. Blaðið St. Petersburg Times í Flórída greindi frá því að Gus, sem var níu ára, hafi þjáðst af krabbameini.
Gus varð í sumar valinn ljótasti hundur heims á Sonoma-Marin hátíðinni sem fram fer árlega í Norður-Kaliforníu.
Síðustu eigendur Gus komu honum til bjargar eftir að þeir komust að því að hann hafi verið geymdur við bág kjör í rimlakassa í bílskúr.
Sem fyrr segir var Gus aðeins með þrjá fætur en það varð að fjarlæga einn fót vegna æxlis. Þá missti hann annað augað þegar hann lenti í átökum við kött.
Eigandi Gus sagðist á sínum tíma ætla að verja verðlaunafénu til að borga fyrir geislameðferð sem Gus þurfti að gangast undir vegna veikindanna.