Reuters-fréttastofan greinir frá því að svokölluðum fasteignaverndurum eða fasteignaumsjónarmönnum fari fjölgandi (e. property guardian). Einn þeirra, Lucy Pook, býr t.a.m. í yfirgefinni slökkvistöð á besta stað í London fyrir aðeins 50 pund (10.000 kr.) á viku.
Fólki gefst nú kostur á að leigja í yfirgefnu húsnæði á borð við skólabyggingar, slökkvistöðvar og vöruhús og greiða lága leigu. Fasteignafélagið Camelot Property Management á t.d. þúsundir eigna sem standa tómar í Bretlandi, Frakklandi, Belgíu og í Hollandi. Fram kemur að húsráðendur vilji helst að einhver búi í húsunum til að koma í veg fyrir að hústökufólk setjist þar að.
Þá er þetta einnig ódýrari lausn heldur en að kaupa þjónustu af öryggisfyrirtæki.
Leigjendurnir greiða venjulega á bilinu 50 til 60 pund á viku. Í staðinn þurfa leigjendurnir að hafa auga með húsnæðinu og láta vita af því ef það þarf t.d. að láta laga eitthvað.