Konur verða mildari gagnvart öðrum konum þegar þær eldast. Þetta er niðurstaða rannsóknar vísindamanna við Aberdeen-háskólann í Bretlandi.
Á sænska viðskiptavefnum e24.se, sem vitnar í breska blaðið The Telegraph, segir að vísindamennirnir hafi látið 100 konur á fimmtugs- og sextugsaldri skoða fjölda mynda af konum. Konur sem komnar voru á breytingaskeiðið eða komnar yfir tíðahvörfin höfðu meiri tilhneigingu til þess að segja að konurnar á myndunum væru aðlaðandi, heldur en þær sem ekki voru komnar á breytingaskeiðið.
Breytt hormónastarfsemi kann að eiga þátt í mati kvennanna, að því er haft er eftir vísindamanninum Benedict Jones. „Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru konur sem komnar eru á breytingaskeiðið ólíklegar til þess að gera lítið úr aðlaðandi konum. Þær líta ekki lengur á þær sem keppinauta við leit að maka og myndun fjölskyldu,“ segir Jones.
Greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar í ritinu Biology Letters.