Það er frostköld stemning meðal breskra bankamanna í fjármálahverfi Lundúnaborgar um þessar mundir og gera má ráð fyrir að minna verði um jólagleði og teiti um komandi hátíð en verið hefur undanfarin ár.
Rúmlega 180.000 starfsmenn fjármálafyrirtækja hafa misst vinnuna á alþjóðavísu í núverandi efnahagskreppu. Að sögn ráðgjafafyrirtækisins Options Group munu jólabónusarnir finna fyrir kaldri kreppunni, en talið er að meðalupphæðin muni minnka um helming um allan heim.
Segja má að í núverandi árferði sé því sælla að spara fyrir fyritæki en eyða um efnum fram.
Í ár þurfa því starfsmenn fjármálafyritækja á borð við Goldman Sachs, BNP Paribas, Barclays, Morgan Stanley, Citigroup og WestLB að greiða fyrir jólateitin úr eigin vasa.
„Fólk er að leita að einhverju ódýrara,“ segir Annas Mohammed-Ali, sem starfar hjá fyrirtækinu Metparties sem sérhæfir sig í að skipuleggja hvers konar viðburði. Mörg fjármálafyrirtæki hafa átt í viðskiptum við Metparties, sem hefur aðsetur í London, en nú hefur bókunum fækkað verulega - eða sem nemur tveimur þriðju.
Liðnir eru dagar þegar skrifstofuteitin voru tileinkuð vissu þema, t.d. Moulin Rouge eða feneyskum grímudansleik. Þemað í ár gæti verið fremur verið íslenskur vetur.