Tveir þýskir útfararstjórar komu fyrir rétt í dag, ákærðir fyrir fjársvik. Þeir eru grunaðir um að hafa látið brenna lík í ódýrum líkkistum þótt fjölskyldur hinna látnu hefðu greitt fyrir dýrar kistur.
Í málinu eru rakin 23 tilvik þar sem aðstandendur keyptu líkkistur fyrir nærri 1000 evrur, jafnvirði um 180 þúsund króna. Þegar athöfn í kirkju var lokið og ættingjar og vinir hinna látnu voru horfnir á braut létu konurnar tvær, sem ákærðar eru í málinu, starfsfólk sitt flytja líkin í ódýrar krossviðarkistur, sem kostuðu 65 evrur, áður en þau voru brennd.
Dýru kisturnar voru síðan hreinsaðar og settar í sýningarglugga útfararstofunnar og seldar að nýju.
Fyrrum starfsmaður útfararþjónustunnar bar grátandi fyrir rétti, að hann hefði ekki getað afborið lengur þegar ánægðir aðstandendur þökkuðu honum fyrir yndislega athöfn.