Edna Parker, elsta kona heims, er látin 115 ára að aldri. Parker fæddist 20.apríl 1893 í Indianaríki í Bandaríkjunum og hafði hlotið viðurkenningu Heimsmetabókar Guinness sem elsta kona heims frá því að Yone Minagawa lést árið 2007 en hún var fjórum mánuðum eldri en Parker.
Parker bjó á sama elliheimili og Sandy Allen, sem var stærsta kona heims samkvæmt Heimsmetabók Guinness þar til hún lést í ágúst síðastliðnum.
Eiginmaður Ednu Parker lést árið 1939 og bjó Parker ein á bóndabæ þeirra hjóna þar til hún varð 100 ára. Eina ráð Parker þegar hún var spurð um lykilinn að langri ævi var að „öðlast meiri menntun.“