Ung kínversk kona missti heyrnina að hluta eftir að kærastinn hennar kyssti hana full ástríðulega.
Fram kemur í kínverskum fjölmiðlum að konan, sem er á þrítugsaldri, hafi farið á sjúkrahús í Zhuhai, sem er í Guangdong-héraði landsins, eftir að hún hafði misst alla heyrn á vinstra eyra.
Í kjölfar atviksins hafa fjölmiðlar varað við því að fólk gangi of langt í kossaflensi sínu, segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins.
„Þrátt fyrir að það sé alla jafna mjög öruggt að kyssast, þá vilja læknar hvetja fólk til að fara varlega,“ kemur fram í China Daily.
Læknirinn sem tók á móti konunni á sjúkrahúsinu sagði í samtali við fjölmiðla að kossinn hafi dregið úr loftþrýstingnum í munninum, dregið hljóðhimnuna út og það hafi orðið þess valdandi að heyrnin gaf sig.
Hann segir hins vegar að konan muni ná sér að fullu eftir um tvo mánuði.