Stjörnufræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að halda ætti jólin í júní eftir að hafa reiknað út hvenær „jólastjarnan“ var yfir Betlehem.
Stjörnufræðingarnir segja að bjarta stjarnan, sem leiddi vitringana þrjá til Jesú, hafi birst yfir Betlehem 17. júní frekar en 25. desember, að sögn breska dagblaðsins The Daily Telegraph.
Vísindamennirnir telja að rekja megi „jólastjörnuna“ til þess að birtan frá reikistjörnunum Venus og Júpiter hafi sameinast 17. júní árið 2 fyrir Krist, þannig að þær hafi virst vera ein og óvenju björt stjarna þennan dag. Hafi stjörnufræðingarnir á réttu að standa var Jesús í tvíburamerkinu en ekki steingeit eins og talið hefur verið.
Stjörnufræðingarnir notuðu flókið tölvuforrit til að reikna út stöðu allra stjarna á næturhimninum yfir Betlehem fyrir um 2.000 árum.