Austurríski leikarinn Daniel Hoevels varð fyrir því á sýningu á verkinu Mary Stuart í borgarleikhúsinu í Vínarborg í vikunni, að skipt hafði verið á leikhúshnífi, sem notaður er í lokaatriði sýningarinnar, og raunverulegum hnífi.
Persónan, sem Hoevels leikur, fremur sjálfsmorð á sviðinu með því að skera sig á háls. Leikarninn tók hnífinn á svipinu og brá honum á háls sér. Blóðið lagaði þá úr Hoevel og hann féll meðvitundarlaus á sviðsgólfið.
Áhorfendur áttuðu sig ekki á hvað gerst hafði fyrr en Hoevels reis ekki upp til að taka við lófatakinu. Hann fékk aðhlynningu en í ljós kom að hann var ekki alvarlega sár og slagæðar höfðu ekki skorist í sundur. Hoevel mætti á sýningu kvöldið eftir með umbúðir um hálsinn.
Lögreglan rannsakar nú málið og hvort hugsanlega hafi verið skipt vísvitandi á hnífunum.