Gjöfin sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, færði Hillary Clinton, þáverandi forsetafrú Bandaríkjanna, árið 1999 fór á 1.009,99 dollara eða rúmlega 115 þúsund íslenskar krónur á uppboði á uppboðsvefnum Ebay.com í gær. Gripurinn, egg á glerfæti, hafði þá verið á uppboði í viku en settir voru upp 299 dollarar fyrir hann. Fyrsta boðið í glergripinn, sem er eftir Sigrúnu í Bergvík, kom í gærmorgun og hljóðaði það upp á 300 dollara.
Forseti Íslands færði Clinton glerskúlptúrinn að gjöf þegar hún kom til Íslands á alþjóðlega ráðstefnu. Seljandi skúlptúrsins kvaðst hafa keypt hann á uppboði í New York.
Örnólfur Thorsson forsetaritari segist ekki hafa skýringu á málinu. „Eðli málsins samkvæmt fylgjumst við ekki með afdrifum þeirra gripa eða gjafa sem koma frá forseta Íslands, núverandi eða fyrirrennurum hans. Við gætum hins vegar vel þeirra gripa sem honum eru færðir að gjöf.“