Bandarísk rannsókn hefur leitt í ljós að hættan á að unglingar lendi í umferðarslysum minnkar verulega ef þeir byrja klukkustund síðar í skólanum og fá því meiri svefn.
Rannsóknin bendir til þess að bílslysum meðal nemenda með bílpróf fækki um 16,5% þegar skólarnir hefjast klukkustund síðar.
Rannsóknin var gerð í Kentucky-ríki í Bandaríkjunum í einn vetur þegar kennslan hófst klukkan hálfátta fyrir hádegi og síðan í einn vetur þegar skóladagurinn hófst klukkan hálfníu. Rannsakaðar voru svefnvenjur 10.000 nemenda á aldrinum 12-18 ára.
Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að hlutfall þeirra nemenda sem fengu að minnsta kosti átta tíma svefn á hverri nóttu jókst úr 35,7% í 50% eftir þessa breytingu. Skýrt er frá niðurstöðunum í grein í nýjasta tölublaði tímaritsins Journal of Clinical Sleep Medicine. Annar höfunda greinarinnar, Fred Danner, sálfræðingur við Kentucky-háskóla, segir að unglingar þurfi að jafnaði a.m.k. átta klukkustunda svefn og líklega nálægt níu stundum.
Sofi þeir einni klukkustund skemur en þeir þurfa þreytist þeir eftir því sem líður á vikuna. Í lok vikunnar séu þeir orðnir eins þreyttir og sljóir og þeir væru fengju þeir engan svefn í sólarhring.
Rannsókn Bandarísku svefnstofnunarinnar (NSF) frá 2006 bendir til þess að 28% framhaldsskólanema hafi sofnað í skólanum og rúm 50% ekið syfjuð. Í annarri könnun meðal háskólanema í Texas sögðust 17% hafa sofnað við stýri.