Tígrisdýr nokkurt í kínverskum dýragarði fær nú stinningarlyfið Viagra og vonast stjórnendur garðsins til að dýrið verði ákafara til ástaleikja.
Jiujiang-dýragarðurinn í Jiangxi-héraðinu fékk lánað karlkyns tígrisdýr að nafni Jing Jing frá dýragarði í Hebei. Ætlunin var að dýrið makaði sig með hinni fjögurra ára gömlu tígrynju Qi Qi.
Hins vegar virtist Jing Jing hafa ósköp lítinn áhuga á Qi Qi. Dýralæknar voru fengnir til aðstoðar því greinilegt þótti að Jing Jing þyrfti hjálp við að finna í sér náttúruna. Haft var eftir talsmanni dýragarðsins að Qi Qi væri á réttum aldri til mökunar og þó nokkurn tíma hefði tekið að finna henni viðeigandi maka.
Því voru góð ráð dýr, en Kínverjarnir dóu ekki ráðalausir. Nú hafa umsjónarmenn í dýragarðinum aukið næringargildi fæðunnar sem Jing Jing fær og gefa honum Viagra til viðbótar. Nú er það von manna að hitna taki í kolunum milli Jing Jing og Qi Qi.