Samskiptavefurinn Facebook hefur heldur betur slegið í gegn hjá Íslendingum og er ekki ósennilegt að þar stefni í enn eitt heimsmetið miðað við höfðatölu eins og Íslendingum einum er lagið.
Vinsældir eru mestar meðal ungs fólks, því nær allir Íslendingar á aldrinum 20-29 ára, eða 95,8%, eru skráðir notendur á Facebook, skv. samantekt ABS Fjölmiðlahúss.
Allt í allt eru rúmlega 120 þúsund Íslendingar, sem nemur tæpum helmingi þjóðarinnar, með Facebooksíðu. Minnst er virknin í hópi 60 ára og eldri en þó nokkur því alls nota 1.560 Íslendingar á þessum aldri Facebook, eða 3,1%. Þá má geta þess að kynjaskiptingin meðal Íslendinga er 60% konur en 40% karlar.