Tékknesk stjórnvöld báðu í dag Búlgara afsökunar á listaverki, sem afhjúpað var í dag í húsi ráðherraráðs Evrópusambandsins í Brussel í tilefni af því að Tékkar fara með forsæti ESB næsta hálfa árið. Á verkinu, sem er stílfært Evrópulandakort, er Búlgaría sýnd eins og tyrkneskt salerni.
„Ég bið Búlgaríu afsökunar og ríkisstjórn landsins telji hún sér vera misboðið og við erum vissulega reiðubúnir til að ræða málið," sagði Alexandr Vondra við blaðamenn í dag.
„Ef þið standið við kröfu ykkar um að fjarlægja það munum við að sjálfsögðu verða við því," sagði Vondra og beindi orðum sínum að búlgörskum sendimanni, sem var viðstaddur afhjúpunina.
Vondra sagði hins vegar ekki að til greina kæmi að fjarlægja verkið allt, sem valdið hefur talsverðu uppnámi og deilum. Í verkinu er Frakkland sýnt í verkfalli, Ítalía er fótboltavöllur, Þýskaland er lagt hraðbrautum sem mynda stílfærðan hakakross og Bretland er hvergi að finna.
Hugmyndin var, að listamenn frá öllum aðildarríkjum ESB, 27 að tölu, myndu búa til stílfært kort af eigin landi. Í ljós hefur hins vegar komið, að tékkneski listamaðurinn David Černý, sem átti að stýra verkinu, gerði það allt sjálfur og laug til um nöfn annarra listamanna, sem voru sagðir hafa komið að því.
Černý var viðstaddur afhjúpunina í dag. Hann baðst einnig afsökunar á því að hafa móðgað einstakar þjóðir og sagðist myndu fallast á að Búlgaría yrði fjarlægð ef farið yrði fram á það.
En hann varði einnig verkið, sem hann sagði gert í samræmi við rótgróna evrópska háðsádeiluhefð. Verkið væri runnið af sömu rótum og bresku sjónvarpsþættirnir Monty Python's Flying Circus, persónan Borat, sem breski gamanleikarinn Sacha Baron Cohen skapaði, og frönsku brúðusjónvarpsþættirnir Les Guignols.
pvh/ag
© 1994-2009 Agence France