Dætur Obama hafa ekki verið í Hvíta húsinu í viku en eru þegar orðnar fórnarlömb markaðarins og móðir þeirra er ekki allskostar ánægð.
Leikfangaframleiðandinn Ty hefur nú sett á markað dúkkur sem heita „Sæta Sasha“ og „Frábæra Malia.“ Talsmenn forsetafrúarinnar Michelle, segja markaðssetninguna afkáralega.
„Okkur þykir óviðeigandi að nota unga ríkisborgara í viðskiptatilgangi,“ segir í tilkynningu frá Michelle Obama.
Talsmenn leikfangaframleiðandans segjast yfirleitt ekki nefna dúkkur eftir ákveðnum einstaklingum þar sem slíkt myndi hafa áhrif á leik barna með dúkkurnar. Í tilfelli nýju Sasha og Malia dúkkanna vilji þeir ekki gefa upp fyrirmyndirnar þar sem slíkt sé viðskiptaleyndarmál.