Breskur karlmaður, sem lá fastur undir sófa heima hjá sér í tvo daga, hélt í sér lífinu með því að drekka viskí.
Joe Galliott, sem er 65 ára, féll um þriggja sæta sófa heima hjá sér þegar rafmagnið sló út á heimili hans fyrr í þessum mánuði. Sófinn endaði ofan á Galliot, sem náði ekki að reisa sig upp þar sem hann er bakveikur. „Sófinn féll ofan á mig og þetta var eins og að veiða rottu í gildru,“ sagði hann í samtali við breska ríkisútvarpið.
Hann lá alls í um 60 klukkustundir undir sófanum. Það var ekki fyrr en nágranni hans leit inn um stofugluggann hjá honum að Galliot var komið til bjargar.
Hann segir að viskíflaska, sem lá við hlið hans, hafi haldið í honum lífinu. „Ég fékk mér sopa og hugsaði með mér: „Þetta er nú ekki svo slæmt.““
Hann varð hins vegar áhyggjufullur þegar klukkustundirnar fóru að líða án þess að nokkur kæmi honum til aðstoðar. „Þetta var eins og heil eilífð.“
Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lá í fimm daga. Galliot segir að nú muni hann ávallt sjá til þess að viskíflaska sé nálægt sófanum. „Bara til öryggis.“