Grunnskóli í New York ríki í Bandaríkjunum hefur formlega breytt nafni Ludlum Elementary School. Í dag heitir hann í höfuðið á Barack Obama Bandaríkjaforseta.
Starfsmenn og nemendur skólans sviptu hulunni af nýju merki skólans í gær. Það er ritað með gullstöfum á bláum grunni.
„Það voru nemendur skólans sem áttu frumkvæði að því að nafninu var breytt, en þau fylltust andgift þegar þau voru að læra um frambjóðendurna og kosningaferlið,“ segir Jean Bligen, skólastjóri Barack Obama-skólans, í samtali við AFP-fréttastofuna.
„Fram að kosningunum fræddust nemendurnir okkar um skoðanir Barack Obama og hvernig hann var alinn upp við fábrotnar aðstæður. Margir nemenda okkar skilja það hvernig það er að búa hjá einstæðu foreldri eða afa og ömmu,“ segir hún.
Nafnið þykir mjög viðeigandi þar sem meirihluti nemendanna, sem eru tæplega 500, eru af afrískum eða spænskum uppruna.