Afar sjaldgæfur bíll, sem safnaði ryki í bílskúr á Englandi í tæpa hálfa öld, seldist á uppboði í París um helgina á 3,4 milljónir evra, jafnvirði 500 milljóna króna.
Í uppboðsskránni kemur fram að bíllinn, sem er sportbíll af gerðinni Bugatti 57S Atalante árgerð 1937, hefur ekki verið gangsettur í nærri 50 ár.
Ættingjar læknisins Harold Carr, sem bjó í Newcastle, fundu bílinn í bílskúrnum eftir að læknirinn lést. Bíllinn var upphaflega í eigu jarlsins af Howe, sem var fyrsti formaður samtaka breskra kappakstursmanna. Aðeins 17 bílar af þessari gerð voru smíðaðir.
Jarlinn eignaðist bílinn árið 1937 og átti hann í átta ár. Carr keypti bílinn árið 1955 af Ridley lávarði og ók honum til ársins 1960 en kom honum þá fyrir í bílskúr. Þar var bíllinn til ársins 2007. Þá hafði honum verið ekið 26.284 mílur.
Bugatti 57S er afar eftirsóttur bíll meðal bílasafnara. Talið er að fjórir séu í eigu bílasafnsins í Muhlouse í Frakklandi en aðrir eru í einkaeign.