Lögregla á Jótlandi stöðvaði í nótt þýskan vörubílstjóra á hraðbraut við Padborg skammt frá þýsku landamærunum en aksturslagið var einkennilegt. Í ljós kom, að bílstjórinn var ekki aðeins drukkinn heldur skildi hann ekkert í því að lögreglan talaði dönsku því hann hélt að hann væri í Þýskalandi.
Jótlandspósturinn hefur eftir lögreglu, að vörubílstjórinn hafði ekki gert sér grein fyrir því að hann hafði ekið yfir landamærin til Danmerkur.
Áfengismælingar sýndu, að bílstjórinn var ekki í ökuhæfu ástandi. Hann var í morgun enn á lögreglustöð í Aabenraa en þar þarf hann að greiða 150 þúsund króna sekt áður en hann fær að fara heim aftur.