Írska lögreglan hefur nú loks ráðið gátuna um pólskan síbrotamann sem var sektaður 50 sinnum fyrir umferðarlagabrot en þar sem hann var alltaf skráður á nýtt og nýtt heimilisfang náðist aldrei í hann.
Gátan leystist eftir að glöggur lögreglumaður áttaði sig á því að nafn síbrotamannsins þýddi „ökuskírteini“ á pólsku.
Reuters fréttastofan greinir frá því að minnisblaði írsku lögreglunnar hafi lekið í írska fjölmiðla. Þar komi fram að þegar umferðarlögreglumenn tóku niður upplýsingar um pólska ökumenn sem höfðu brotið af sér í umferðinni skráðu þeir fyrir mistök nafnið „Prawo Jazdy“ sem stóð efst á ökuskírteinunum.
Í raun þýðir „Prawo Jazdy“ einfaldlega „ökuskírteini“ á pólsku. Segir í minnisblaðinu, sem er frá því í júní árið 2007, að það sé hálfpínlegt að uppgötva að kerfið hafi skapað Prawo Jazdy sem einstakling með yfir 50 umferðalagabrot á bakinu.
Talsmaður írsku lögreglunnar neitar að tjá sig um málið.
Um 200 þúsund Pólverjar freistuðu gæfunnar á Írlandi meðan að efnahagslíf þar var í blóma en könnun sem gerð var í nóvember síðastliðnum sýnir að þriðjungur þeirra ráðgerir nú að snúa til baka vegna kreppunnar.