Skurðlæknar sem notuðu blóðsugur þegar þeir festu hönd aftur á mann sem varð fyrir hákarlaárás á Bondi ströndinni í Sydney, segja að um lítið kraftaverk hafi verið að ræða.
2,5 metra langur hvítur hákarl réðst á Glenn Orgias, 33 ára brimbrettakappa, í sjónum við Bondi ströndina 12. febrúar sl. Orgias var fluttur tafarlaust á sjúkrahús en minnstu munaði að höndin losnaði alveg af en hún hékk á 3 sentímetrum af húð. Lýtalæknirinn Kevin Ho sagði að litlar líkur væru á að hægt væri að festa höndina aftur á Orgias.
„Hinsvegar ... miðað við almenna heilsu hans og hversu fljótt hann var fluttur á skurðarborðið þá var mögulegt að festa höndina aftur á,“ sagði hann við blaðamenn. Ho sagði að með því að nota blóðsugur hefði verið hægt að koma blóðstreyminu aftur í gang og sagðist hann vongóður um að Orgias fengi mátt í höndina og gæti notað hana aftur.
„Það er ekki öll hætta liðin hjá en Orgias hefur náð það miklum bata að ég held það sé óhætt að tala um lífið kraftaverk og þetta sýnir hversu hraustur hann er.“ Orgias þakkaði frönskum brimbrettakappa fyrir að hafa bjargað lífi sínu en sá klemmdi fyrir æðarnar í handleggnum til að koma í veg fyrir að Orgias blæddi út.
Um var að ræða aðra hákarlaárásina í Ástralíu á jafnmörgum dögum en ráðist var á kafara við höfnina í Sydney deginum áður. Sá missti hand- og fótlegg. Talið er að þetta sé fyrsta árás hvíts hákarls við strendur borgarinnar.
Síðasta banvæna hákarlaárásin í Ástralíu átti sér stað árið 1963 en sé litið yfir síðustu tvær aldirnar eru dauðsföllin alls 194.