Í NÝRRI skoðanakönnun sem gerð var í Bretlandi í sambandi við Heimsdag bókarinnar, sem var í gær, svöruðu 65% aðspurðra játandi er þeir voru spurðir að því hvort þeir hefðu nokkru sinni sagst hafa lesið bók sem þeir höfðu ekki lesið. 42% aðspurðra sögðust einhvern tíma hafa ranglega sagst hafa lesið skáldsöguna 1984 eftir George Orwell, 31% sögðust hafa lesið Stríð og frið eftir Leo Tolstoy, án þess að hafa lesið hana, 25% höfðu logið að þeir hefðu lesið Ulyssess eftir James Joyce og 24% að þeir hefðu lesið Biblíuna.
33% segjast aldrei hafa logið til um lestur á bókum.
Samkvæmt The Guardian leiddi könnunin einnig í ljós að margir eru óþolinmóðir við lestur og fletta hratt yfir kafla til að komast sem fyrst að endinum og að margir hirða ekki vel um bækurnar – 62% aðspurðra brjóta upp á horn blaðsíða til að merkja hvert þeir eru komnir.
14% viðurkenndu að hafa skrifað eða krotað í bókasafnsbækur.
„Ég vann í bókasafni og bækur koma oft inn í hræðilegu ásigkomulagi. Þá er nú betra að fólk brjóti upp á horn en að fá inn bók eftir Tolstoy sem skurðstofusokkur lafir út úr,“ segir einn viðmælenda.