Þvottavélin spilaði stærri rullu í frelsisbaráttu kvenna en getnaðarvarnarpillan, að því er fram kemur í umfjöllun fréttarits Vatíkansins, L'Osservatore Romano, um Alþjóðlegan baráttudag kvenna í dag.
„Þvottavélin og frelsi kvenna: settu duftið í, lokaðu vélinni og slappaðu af,“ segir fyrirsögn greinarinnar þar sem sett er fram sú spurning hvaða þáttur hafi lagt mest að mörkum í sjálfstæðisbaráttu vestrænna kvenna. „Rökræðan er enn opin. Sumir segja að það hafi verið pillan, aðrir segja lögleiðing fóstureiðinga, eða að geta átt starfsframa utan heimilisns. Sumir ganga enn þá lengra: það var þvottavélin,“ segir í greininni.
Eftir fylgir löng lofræða um dásemdir þvottavélarinnar, sem fyrst kom fram á sjónarsviðið á 18. öld og vitnar meðal annars í fræg orð bandaríska femínistans og rithöfundarins Betty Friedan, um seiðmagn þess að geta „skipt um á rúminu ekki bara einu sinni, heldur tvisvar í viku.“
Greinin skýrir frá því að þvottavélar hafi fyrst um sinn verið heldur óáreiðanlegar, en tækninni hafi fleygt svo fram að konur geti nú uppfyllt „ímynd súperkonunnar, brosandi, máluð og geislandi innan um heimilistækin.“