Bandaríski rithöfundurinn Mark Twain er frægastur fyrir sögur sínar um Stikilsberja-Finn og Tom Sawyer og skeggprútt, góðlátlegt fasið er eitt af þekktari „íkonum“ bókmenntasögunnar.
Í næsta mánuði kemur út bók með áður óbirtum sögum og greinum eftir Twain, 99 árum eftir andlát hans, þrátt fyrir að höfundurinn sjálfur hafi verið afar andsnúinn svoleiðis gerningum. Safnritið kallast Who is Mark Twain? og þar er m.a. að finna upprifjun Twain á fyrsta fyrirlestrinum sem hann hélt í New York, ádrepu um Jane Austin og hnyttna smásögu um jarðarfararstofur.
Twain átti stærsta safn einkabréfa og -rita af öllum þeim nítjándu aldar höfundum Bandaríkjanna sem eitthvað kvað að, segir ritstjóri bókarinnar, Robert Hirst. Andrew Gulli, ritstjóri tímaritsins The Strand, sem mun birta eina af þessum áður óútgefnum sögum, segir Twain þá ekki eiga möguleika á því að daga uppi. Glúrin samfélagsrýni hans og kímnigáfa eigi jafn vel við í dag og þá. Nokkur uppgangur hefur annars verið í „óútgefna“ bransanum upp á síðkastið en HarperCollins gefur brátt út fyrstu skáldsögu Jack Kerouac, The Sea is My Brother, saga sem ekki hefur litiðdagsins ljós fyrr en nú.