Svissneskur maður á áttræðisaldri var í dag dæmdur fyrir stórtækan reiðhjólaþjófnað, en hann mun hafa stolið hátt í 900 hjólum á síðustu sex árum.
Maðurinn vann áður sem tryggingafulltrúi, en eftir að hann fór á eftirlaun árið 2001 söðlaði hann um og gerðist reiðhjólaþjófur. Hjólunum kom hann fljótt aftur í verð á svörtum markaði að sögn svissnesku fréttastofunnar ATS.
Hann hlaut í dag tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm og var sektaður um 66.000 svissneska franka sem skýrðir voru sem ógreiddur skattur af þeim hagnaði sem hann hafði af hjólasölunni.