Danska kynlífssafnið Museum Erotica er gjaldþrota og til sölu. Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn neituðu að styrkja safnið, sem hafði lent í peningavandræðum, og því fór sem fór.
„Það er einkennilegt, að enginn telur að það sé nauðsynlegt að halda úti kynlífssafni í svokölluðu frjálslyndu ríki eins og Danmörku. Einkum þar sem við höfum oft fengið heilu skólabekkina í heimsókn. Þetta er engin klámbúð heldur raunveruleg frásögn af kynlífi mannsins frá því um 10 þúsund árum fyrir Krist og til okkar daga," segir Hanne Steensgaard, safnvörður Museum Erotica, við viðskiptavef Jótlandspóstsins. Hún segist vonast til að kaupandi finnist að safninu.
Safnið var stofnað árið 1983 af Ole Ege, sem var einn af frumkvöðlum klámmyndaiðnaðarins í Danmörku. Safnið hefur verið til húsa í miðborg Kaupmannahafnar og þar hafa um 1500 safngripir verið til sýnis.